Lög félagsins

Lög Félags járniðnaðarmanna

I. Kafli. Nafn, hlutverk, tilgangur og félagaaðild

 

1. GREIN. Nafn og hlutverk

A. Félagið heitir Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði.
B. Félagssvæði þess nær yfir Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðabæ og Súðavíkurhrepp.
C. Heimili og varnarþing þess er á Ísafirði.
D. Félagið er aðili að Samiðn, sambandi iðnfélaga og ASÍ.

 

2. GREIN. Tilgangur

Tilgangur félagsins er að:
A. Sameina alla fagmenntaða starfsmenn, auk nema í málm, skipa og véltæknigreinum í eitt félag og gæta hagsmuna þeirra.
B. Vinna að bættum kjörum félagsmanna m.a. með samningum um laun, vinnutíma og félagsleg réttindi.
C. Vinna að betri iðn-og starfsmenntun í öllum starfsgreinum félagsmanna og auka félagslega þekkingu.
D. Vinna að atvinnumálum starfsgreinanna.
E. Vinna að betra starfsumhverfi fyrir félagsmenn.
F. Hafa náið samstarf við félög innan Samiðnar og ASÍ svo og önnur félög innanlands og utan sem hafa líkra hagsmuna að gæta.

 

3. GREIN. INNGÖNGUSKILYRÐI

Inngöngu í félagið geta þeir fengið sem:
A. Starfa, eða eru að hefja störf er 2. gr. A – liður greinir frá.
B. Eru fullra 16 ára að aldri.
C. Standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan ASÍ, sem viðkomandi hafa verið í.
D. Einnig þeir sem vinna samkvæmt samningum félagsins á félagssvæðinu en hafa ekki óskað eftir aðild geta orðið aukafélagar sem og þeir aðilar sem eru í námi til sveinsprófs í málm-, skipa- og vélatæknigreinum.

 

4. GREIN. INNGANGA Í FÉLAGIÐ

A. Allir þeir sem uppfylla ákvæði 6. gr. og greiða til félagsins eiga þess kost að óska eftir inngöngu í félagið.
B. Sá sem óskar inngöngu í félagið skal senda skrifstofu þess skriflega inntökubeiðni.
C. Hafi launamaður ekki sótt um félagsaðild, en greitt félagsgjald í samræmi við ákvörðun aðalfundar félagsins á hverjum tíma, skal félagið innan mánaðar eftir að félagsgjaldi var fyrst skilað senda viðkomandi tilkynningu um greiðslur og kanna hvort hann óskar inngöngu í félagið. Geri launamaður ekki athugasemdir við aðild innan 14 virkra daga frá dagsetningu tilkynningar telst hann orðinn félagsmaður.

 

5. GREIN. ÚRSÖGN

A. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og skal gerð grein fyrir ástæðu hennar. Hún skal afhent skrifstofu.
B. Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu
C. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi innan ASÍ, er lagt hafa niður vinnu vegna kjaradeilu.


II. Kafli. Réttindi og skyldur félagsmanna

 

6. GREIN. RÉTTINDI FÉLAGA

Réttindi félagsmanna eru eftirfarandi nema öðruvísi/annað sé ákveðið í lögum þessum:
A. Allir félagar njóta málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum svo og kjörgengi.
B. Réttur á styrkjum úr sjóðum félagsins, að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerðum sjóðanna.
C. Réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem samningar félagsins ákveða hverju sinni.
D. Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda atvinnurekenda á samningum.
E. Ef félagsmenn eiga hlut í eða reka fyrirtæki, skulu þeir sitja hjá við atkvæðagreiðslu um mál sem varðað gætu hagsmuni þess fyrirtækis.

 

7. GREIN. SKYLDUR FÉLAGA

Skyldur félagsmanna eru:
A. Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum.
B. Að greiða félagsgjöld samkvæmt samþykktum félagsins.
C. Að stuðla að því að ófélagsbundnir einstaklingar sem eiga rétt til inngöngu í félagið gerist félagsmenn.8. GREIN. FÉLAGSGJÖLD OG RÉTTINDAMISSIR

A. Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi.
B. Félagsgjöld skulu innheimt sem ákveðin % af launum, en þó er heimilt að ákveða lágmarksgjald.
C. Hver sá félagsmaður sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 3 mánuði eða meira nýtur ekki fullra félagsréttinda, svo sem atkvæðisréttar, kjörgengis né styrkja úr sjóðum félagsins. Réttindi öðlast hann ekki á ný fyrr en skuldin er að fullu greidd eða hann getur sýnt fram á að dregið hafi verið af honum félagsgjald .
D. Eins árs skuld varðar útstrikun af félagaskrá. Félagsmenn sem eru í veikindaleyfi, sjúkir, falla af launaskrá eða stunda nám, greiða ekki félagsgjöld.


III. Kafli. Stjórn og stjórnarkjör

 

9. GREIN. STJÓRN

A. Stjórn félagsins skipa 5 menn, formaður kosinn sérstaklega, varaformaður, ritari, og gjaldkeri og meðstjórnandi og auk þess 2 varamenn. Skal stjórnin kosin bundinni kosningu á aðalfundi ár hvert. Enn fremur skulu kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og einn til vara.
B. Enginn stjórnarmaður er löglega kosinn nema hann fái helming eða meirihluta atkvæða þeirra sem þátt taka í atkvæðagreiðslunni.
C. Kjörtímabil stjórnar er á milli aðalfunda.
D. Kjósa skal stjórn og varastjórn á aðalfundi sbr. 12. gr. Kjósa skal sérstaklega formann, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.


10. GREIN. STÖRF STJÓRNAR

Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda, sbr. 11. grein. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eignum og rekstri félagsins. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að allt er varðar sögu félagsins sé sem best varðveitt. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum sem hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila af sér öllum gögnum sem trúnaðarstarf hans varðar. Formaður boðar stjórnarfundi með minnst tveggja daga fyrirvara. Einnig skal halda stjórnarfund ef 1 eða fleiri stjórnarmenn óski þess.


IV. Kafli. Fundir og stjórnarkjör.


11. GREIN. FÉLAGSFUNDIR

 

Félagsfundi skal halda að mati stjórnar. Þó er stjórninni skylt að boða til fundar ef minnst 5 menn óska þess skriflega. Félagsfundur er löglegur og ályktunarfær er löglega hefur verið til hans boðað með auglýsingum minnst 48 stundum fyrir boðaðan fundartíma, án tillits til þess hve margir eru mættir. Á fundinum ræður afl atkvæða úrslitum, nema öðruvísi hafi verið ákveðið í fundarsamþykkt og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg ef óskað er. Afgreiðsla fjármálatengdra atriða sem fara fram úr 30% af nettó eign félagsins skal fara fram á tveim fundum.

 

12. GREIN. AÐALFUNDUR

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með 7 sólarhringa fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað. Boða skal til fundarins með sannanlegum hætti, svo sem á heimasíðu, miðlum félagsins og/eða opinberri auglýsingu s.s. í fréttamiðlum.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
o Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
o Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
o Kosning stjórnar
o Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna og eins til vara.
o Lagabreytingar og reglugerðabreytingar, ef fyrir liggja.
o Ákvörðun félagsgjalda.
o Önnur mál.

 

V. Kafli. Fjármál.


13. GREIN. FÉLAGSGJÖLD

Aðalfundur ákveður það gjald sem félagsmenn skulu greiða. Stjórn félagsins skal leggja fyrir aðalfund tillögur sínar um gjöld félagsmanna. Til þess að samþykkja tillögur um lækkun félagsgjalds þarf 2/3 greiddra atkvæða. Aukafélagar greiða sama félagsgjald eins og aðrir félagsmenn.

 

14. GREIN. ÚTGJÖLD

Af tekjum félags skal greiða öll útgjöld þess. Við meiri háttar ráðstafanir á eigum félagsins þarf samþykki aðalfundar eða félagsfundar.

 

15. GREIN. SKOÐUNARMENN OG LÖGGILT ENDURSKOÐUN

Tveir félagslegir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Skoðunarmenn eru kosnir á aðalfundi. Hlutverk þeirra er m.a. að hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé varið til þeirra verkefna sem félagsfundur og/eða stjórn hafa ákveðið. Auk athugunar hinna félagskjörnu skoðunarmanna er stjórn félagsins skylt að láta löggildan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikningsárs. Reikningar félagsins skulu liggja frammi, til skoðunar fyrir félagsmenn, 7 dögum fyrir aðalfund.

 

16. GREIN. SJÓÐIR FÉLAGSINS

A. Sjóðir í eigu eða vörslu félagsins skulu vera:
• Félagssjóður
• Sjúkrasjóður
• Orlofssjóður
• Svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að vera.
B. Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð sem samþykkja þarf á aðalfundi. Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skuli vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.
C. Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum, í ríkistryggðum skuldabréfum í bönkum eða í sparisjóðum, í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign eða á annan hátt er stjórn félagsins metur tryggan.
D. Tekjur félagsins skiptast milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðum þeirra.


VII Kafli. Lagabreytingar.


17. GREIN. LAGABREYTINGAR

A. Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði. Einnig er heimilt að breyta lögum á félagsfundi, hafi lagabreytingarnar áður verið ræddar á félagsfundi og breytinganna getið í fundarboði.
B. Til þess að breytingin nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.
C. Breytingar á lögunum koma fyrst til framkvæmda er stjórn hlutaðeigandi landssambands og miðstjórn ASÍ hefur staðfest þær.


VIII Kafli. Slit félagsins


18. GREIN. FÉLAGSSLIT

A. Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað stéttarfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna að áskildu samþykki miðstjórnar Alþýðusambandsins.
B. Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar.
C. Um úrsögn úr ASÍ og aðildarsamtökum þess fer skv. lögum ASÍ.