Yfirlýsing frá stjórnum Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði og Verkalýðsfélagi Vestfirðinga.
Fyrirtækið 3X-stál var stofnað af Ísfirðingum árið 1994 og hefur verið starfrækt á Ísafirði síðan. 3X-stál hefur allar götur síðan verið leiðandi í framleiðslu á hátæknibúnaði fyrir matvælaiðnað. Breytingar á eignarhaldi hafa orðið síðari ár og nú á síðasta ári eignaðist þýska fyrirtækið Baader fyrirtækið Skagann-3X að fullu. Með þeim gjörningi átti að styrkja fyrirtækið verulega til hagsbóta fyrir starfsfólk, vestfirskt samfélag og íslenskt atvinnulíf.
Á starfsmannafundi fyrr í dag var öllum starfsmönnum Skagans-3X á Ísafirði sagt upp störfum og tilkynnt að starfsstöð fyrirtækisins verði lokað, taka uppsagnir gildi 31. ágúst.
Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði, Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Vinnumálastofnun munu funda með
starfsmönnum Skagans-3X á Ísafirði í næstu viku varðandi stöðuna og réttindi starfsmanna við hópuppsagnir.
Ákvörðun þessi er mikið högg, en með henni missa um 30% félagsmanna Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði vinnuna í einu vettvangi. Um er að ræða sérhæfð störf og hefur mikil þekking verið byggð upp innan starfsstöðvarinnar á 29 ára ferli fyrirtækisins. Nú hefur fyrirtækið tilkynnt 27 starfsmönnum um atvinnumissi, sumum hverjum með mjög langan starfsaldur, og verða þessir starfsmenn að óbreyttu tekjulausir í aðdraganda Jóla.
Stjórnir Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði og Verkalýðsfélags Vestfirðinga fordæma að gripið hafi verið til þessara hörðu og skyndilegu aðgerða. Ákvörðunin er mikið áfall fyrir starfsmenn fyrirtæksins á Ísafirði sem
fullyrða að rekstur stöðvarinnar standi undir sér, mikil verkefni séu í farvatninu og telja þeir erfitt að réttlæta megi svo harkalega ákvörðun.
Í tilfellum sem þessum ber að fylgja lögum um hópuppsagnir þar sem kveðið er á um samráðsferli sem á að fara fram í aðdraganda slíkra ákvarðana. Þessu lögbundna ferli er ætlað að lágmarka skaða þann sem starfsmenn og nærsamfélagið verða fyrir komi til hópuppsagna. Slíku hafi ekki verið til að dreifa í þessu tilfelli þar sem starfsmönnum og viðeigandi stéttarfélögum var tilkynnt um ákvörðun sem þegar hafði verið tekin af stjórn fyrirtækisins.
Stjórnir Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði og Verkalýðsfélags Vestfirðinga harma að samráðsferlið samkvæmt lögum um hópuppsagnir hafi ekki verið fylgt.
Engin trygging er fyrir því að þessir sérhæfðu og reynslumiklu starfsmenn fái vinnu við sitt hæfi á atvinnusvæðinu. Er það réttlætanleg stefna að leggja niður mikilvæga starfsemi á landsbyggðinni á tímum sögulegrar uppbyggingar atvinnulífs okkar Vestfirðinga?